Vörn málfrelsis og frelsi málsvarna

Tjáningarfrelsið gefur mér rétt til að segja hvað mér finnst. Margir taka það á orðinu og segja allt sem þeim í huga býr. Útbreiða lygar og svívirðingar um fólk.
"Hvað? Ég má það!"
Á þjóðvegi 1 er yfirleitt 90 km hámarkshraði. Sé hann minni er það sérstaklega merkt.
Segjum sem svo að þú sért að keyra á þjóðvegi 1. Þar sem þú ert er 90 km hámarkshraði og engin merki um annað. Þú keyrir fram á bilaðan bíl í kantinum. Nokkrir hafa stoppað til að hjálpa. Fólk er á þönum en þú hægir ekkert á þér. Þú mátt keyra á 90. Það er þinn réttur.
Þú mátt það.
Framkölluðu dönsku skopmyndirnar af Múhameð spámanni mörg bros? Ég sá þær. Þær voru ekkert fyndnar enda voru þær sennilega ekki birtar í þeim tilgangi. Þær voru ögrun. Prófsteinn á það sem má.
Vissulega má segja að við höfum öll ekki nema gott af því að láta ögra okkur og storka. Spurningin er hversu langt skuli ganga í þeim efnum. Rasistasíðan íslenska hefur orðið mér og öðrum umhugsunarefni. Þar finnst mér farið langt yfir mörkin.
Það getur verið snúið að setja tjáningarfrelsinu mörk. Það reyndu til dæmis andfætlingar okkar í Ástralíu. Þar í landi voru fyrir nokkrum árum sett lög sem bönnuðu fólki að útbreiða andúð á trúflokkum og trúarskoðunum, svonefnt "hate speech". Margir tóku lögunum fagnandi. Vinstri menn töldu þau samræmast þeirri skyldu ríkisins að verja fólk hvert fyrir öðru. Múhameðstrúarmenn sáu í þeim vörn gegn islamófóbíu.
Tilgangur laganna var að sjálfsögðu sá að standa vörð um frið og reglu í samfélaginu.
Útkoman varð þveröfug. Lögin hafa kynt undir ófriðareldum sem enn loga. Hver sem talar ógætilega um trúmál á yfir höfði sér málssókn.
Fyrsta stóra dómsmálið eftir lögin var sótt af islömskum samtökum. Þau ákærðu lítinn kristinn sértrúarflokk. Á samkomum hans hafði verið talað afar niðrandi um múhameðstrú og fylgjendur hennar.
Málið fékk alþjóðlega umfjöllun og sakborningarnir, fámennur hópur ástralskra bókstafstrúarmanna, urðu að píslarvottum og merkisberum tjáningarfrelsisins. Stuðningsmenn þeirra fóru að láta sjá sig á samkomum múhameðstrúarmanna, vopnaðir skrifblokkum og upptökutækjum, til að ná því nú örugglega ef þar yrði eitthvað miður gott sagt um kristni. Réttarhöldin stóðu mánuðum saman og kostuðu stórfé. Þar var tekist á um alls konar trúarlegar og guðfræðilegar skilgreiningar. Arabísk málfræði kom einnig við sögu.
Dómurinn féll hinum kristna sértrúarflokki í óhag. Forsvarsmenn hans urðu að biðjast opinberlega afsökunar á ummælum sínum.
Sér nú ekki fyrir endann á málssóknum. Dæmdur barnaníðingur stefndi Hjálpræðishernum fyrir að bendla galdra við djöflatrú. Fylgjendur hins víðfræga satanista Alistair Crowley drógu þekktan barnasálfræðing fyrir rétt. Hann átti að hafa gefið í skyn að börn væru misnotuð í trúarathöfnum hópsins.
Frægasta dæmið er samt mál kynskiptingsins og nornarinnar Oliva Watts gegn áströlskum hvítasunnumönnum. Árið 2003 bauð hún sig fram til borgarstjórnar í sinni heimabyggð. Það athæfi mætti harðri andstöðu hvítasunnumanna á svæðinu en sú kirkjudeild er þar útbreidd. Þeir gátu ekki hugsað sér kynskipting og norn í borgarstjórn. Efnt var til bænasamkoma gegn frú Watts sem brást hin versta við andstöðunni.
Deilan breiddist út. Í hana blönduðu sér samtök á borð við Pagan Awareness Network (PAN). Amerísk samtök, Witches Voice in America, sendu frú Watts fjárframlag. Hið ástralska samfélag var sagt gegnsýrt af nornafóbíu (wiccaphobia).
Réttarhöldin tóku 14 mánuði með tilheyrandi fjárútlátum.
Sennilega hefur enginn grætt á þessum lögum.
Nema þá nokkrir lánsamir lögfræðingar. Og ef til vill blöðin.
(Pistillinn er tólf ára gamall og birtist upphaflega á gömlu bloggsíðunni minni. Mér finnst hann eldast ágætlega og geta verið innlegg í umræðu dagsins.)
Myndina tók ég fyrr í sumar af samskiptatækjum fortíðarinnar, gömlum, veðurbörðum og einmana símastaurum á Dalsfjalli milli Unaðdsals á Snæfjallaströnd og Leirufjarðar í Jökulfjörðum.